Ferill 918. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1363  —  918. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. A-liðar 68. gr. skal ákvarða og greiða barnabætur við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024 á eftirfarandi hátt:
    Greiða skal tekjutengdar barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu sem árlega skulu nema 328.000 kr. Tekjutengdar barnabætur með hverju barni einstæðra foreldra skulu vera 489.000 kr. Barnabætur samkvæmt þessari málsgrein skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 11.000.000 kr. hjá hjónum og umfram 5.500.000 kr. hjá einstæðu foreldri. Með tekjuskattsstofni í þessu sambandi er átt við tekjur skv. II. kafla að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 4. 5. og 7. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. Skerðingarhlutfallið skal vera 4% með öllum börnum óháð fjölda þeirra. Til viðbótar barnabótum samkvæmt þessari málsgrein skal greiða tekjutengdar barnabætur með hverju barni yngra en sjö ára á tekjuárinu. Skulu þær árlega nema 130.000 kr. og skal skerðingarhlutfall þeirra vera 4% með hverju barni af tekjuskattsstofni umfram 11.000.000 kr. hjá hjónum og umfram 5.500.000 kr. hjá einstæðu foreldri.

    b. (II.)
    Við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024 skal ákvarða mönnum sérstakan vaxtastuðning á eftirfarandi hátt:
     1.      Sérstakur vaxtastuðningur skal vera 23% af vaxtagjöldum ársins 2023 vegna lána sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin eru kaup á búseturétti samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, eins og þau eru í árslok 2023.
     2.      Sérstakur vaxtastuðningur getur aldrei verið hærri en 150.000 kr. á ári fyrir hvern mann, 200.000 kr. á ári fyrir einstætt foreldri og 250.000 kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 62. gr., í lok tekjuárs. Hámark sérstaks vaxtastuðnings hjá þeim sem skattskyldir eru skv. 1. gr. hluta úr ári ákvarðast í hlutfalli við dvalartíma á árinu.
     3.      Sérstakur vaxtastuðningur skerðist hlutfallslega fari eignir skv. 72. gr., að frádregnum skuldum skv. 1. mgr. 75. gr., fram úr 18.000.000 kr. hjá einstaklingi eða einstæðu foreldri og 28.000.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Skerðingarhlutfallið skal vera 0,5% af hreinni eign skv. 1. málsl.
     4.      Sérstakur vaxtastuðningur skerðist í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 6.000.000 kr. hjá einstaklingi eða einstæðu foreldri og 9.600.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með tekjuskattsstofni samkvæmt þessari grein er átt við sama stofn og vaxtabætur eru ákvarðaðar út frá, sbr. B-lið 68. gr., sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI, eftir því sem við á. Skerðingarhlutfallið skal vera 4% af tekjuskattsstofni.
     5.      Sérstakur vaxtastuðningur skal ákvarðaður við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2024 og birtur í niðurstöðu þeirrar álagningar. Á tímabilinu 1.–30. júní 2024 getur hver sá sem hefur fengið ákvarðaðan sérstakan vaxtastuðning valið á þjónustusíðu sinni á skattur.is inn á hvaða lán, sbr. 1. tölul., skuli greiða greinda fjárhæð, eða eftir atvikum til jafnrar lækkunar á afborgunum tiltekins láns út árið 2024 þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Ákvörðun um ráðstöfun er bindandi en ef ekkert er valið skal greiða inn á það lán sem er með hæstu eftirstöðvar samkvæmt skattframtali. Sérstökum vaxtastuðningi verður ekki skuldajafnað eins og mælt er fyrir um í 14. mgr. B-liðar 68. gr. Sérstakur vaxtastuðningur, sem er lægri en 5.000 kr. á mann, fellur niður.
     6.      Ríkisskattstjóri skal á tímabilinu 1.–31. júlí 2024 afhenda Fjársýslunni upplýsingar um ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings og inn á hvaða lán eða afborganir skal greiða, sbr. 5. tölul., á tímabilinu. Fjársýslan greiðir sérstakan vaxtastuðning og miðlar upplýsingum innan fimm virkra daga frá móttöku til lánveitenda sem ráðstafa greiðslunum beint inn á lán, og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds, eða afborganir innan fimm virkra daga frá móttöku í samræmi við 5. tölul. Séu lán í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Hafi lántakandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga skal fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi. Ráðstafi lánveitandi ekki greiðslu inn á lán eða afborganir í samræmi við ákvæði þetta skal hann endurgreiða Fjársýslunni þá fjárhæð sem ekki var ráðstafað. Greiðsla sérstaks vaxtastuðnings telst eign ríkissjóðs þar til ráðstöfun hennar hefur farið fram.
     7.      Um rétt til sérstaks vaxtastuðnings gilda að öðru leyti ákvæði B-liðar 68. gr., sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI, eftir því sem við á. Komi í ljós síðar að sérstakur vaxtastuðningur hefur verið ákvarðaður of hár miðað við breytingar á skattframtali viðkomandi myndast skuld en ekki verður gerð breyting á ráðstöfun inn á lán.
     8.      Sérstakur vaxtastuðningur samkvæmt ákvæði þessu telst ekki til skattskyldra tekna og kemur til viðbótar vaxtabótum skv. B-lið 68. gr., sbr. ákvæði til bráðabirgða XLI.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd sérstaks vaxtastuðnings á grundvelli þessa ákvæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við ákvörðun barnabóta og sérstaks vaxtastuðnings við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, er varða barnabætur og sérstakan vaxtastuðning og eru breytingarnar hluti af stuðningi ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði í mars 2024.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins má rekja til stuðnings ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og aðgerða þeirra til að styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar snúa að ýmsum efnahags- og kjaramálum sem styðja við lífskjör launafólks með sérstakri áherslu á húsnæðisuppbyggingu, húsnæðisstuðning og málefni barnafjölskyldna.
    Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu á fjárhæðum, skerðingarmörkum og skerðingarhlutföllum barnabóta eru hluti af stórefldum stuðningi við barnafjölskyldur. Með því að hækka barnabætur og draga úr tekjuskerðingum munu mun fleiri foreldrar njóta stuðnings í formi barnabóta.
    Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að á árinu 2024 verði ákvarðaður, og greiddur inn á höfuðstól lána eða til að lækka afborganir lána, sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán til að mæta auknum vaxtakostnaði þeirra síðustu misseri.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Barnabætur.
    Um ákvörðun barnabóta er fjallað í A-lið 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Barnabætur eru tekjutengdar bætur sem greiddar eru með börnum yngri en 18 ára. Fjárhæð barnabóta ræðst af fjölda og aldri barna á heimili, hjúskaparstöðu foreldra og tekna þeirra. Barnabætur eru tekjutengdar til að ná því fram að stuðningur barnabóta sé mestur hjá þeim fjölskyldum sem þurfa mest á stuðningi að halda en meginmarkmið barnabóta er að styðja við efnaminni foreldra.
    Á árinu 2022 var stigið mikilvægt skref til umbóta með aðgerðum til að styðja við markmið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun verðbólgu og vaxta. Stjórnvöld gerðu m.a. breytingar á vaxta- og barnabótakerfinu í tveimur áföngum, sem tóku gildi á árunum 2023 og 2024, sem markvisst miðuðu að því að styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks. Með breytingunum varð stuðningur til barnafjölskyldna betri og skilvirkari, fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgaði, dregið var úr skerðingum, jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir og skilvirkni barnabóta aukinn. Auk þess sem grunnfjárhæðir barnabóta voru hækkaðar og skerðingar lækkaðar var barnabótakerfið einfaldað töluvert. Þetta leiddi til aukins gagnsæis barnabótakerfisins og mætti þeim breytingum sem hafa orðið á stöðu foreldra og ábyrgð á umönnun og uppeldi barna á undanförnum árum og áratugum. Áætlað var að þessar breytingar myndu skila því að fleiri foreldrar fengju greiddar barnabætur en hefði orðið í óbreyttu kerfi.
    Í fyrri áfanganum fólst að frá og með 1. janúar 2023 varð fjárhæð tekjutengdra barnabóta með hverju barni einungis ein en áður voru bætur með fyrsta barni lægri en með þeim sem voru umfram það. Þannig fylgir sama fjárhæð öllum börnum, að gefinni fjölskyldustöðu foreldra, en ekki mismunandi fjárhæð milli frumburðar og annarra barna líkt og áður var. Samhliða var jafnframt dregið úr vægi viðbótarbarnabóta auk þess sem skerðingarmörk tekna vegna barnabóta eftir hjúskaparstöðu urðu einungis ein.
    Í síðari áfanganum fólst að frá og með ársbyrjun 2024 urðu skerðingar í barnabótakerfinu minni og fjárhæðir bótanna hækkuðu. Skerðingarmörk tekna vegna barnabóta voru hækkuð og skerðingarhlutfallið er nú einungis eitt með öllum börnum óháð hjúskaparstöðu og tekur einnig til skerðingarhlutfalls með börnum yngri en sjö ára.
    Í frumvarpi þessu eru ívilnandi og afturvirkt lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sem tóku gildi í ársbyrjun 2024. Árleg framlög til stuðnings við barnafjölskyldur í gegnum barnabótakerfið verða aukin um 3 milljarða kr. á árinu 2024, til viðbótar við fyrri áform, og um 2 milljarða kr. til viðbótar á árinu 2025 og munu þau þá nema um 19 milljörðum kr. á árinu 2024 og um 21 milljarði kr. á árinu 2025. Grunnfjárhæðir og tekju- og skerðingamörk hækka enn frekar samhliða lækkun á skerðingarhlutfalli bótanna til að auka stuðning og fjölga þeim fjölskyldum sem fá barnabætur. Með breytingunum munu tíu þúsund foreldrar til viðbótar fá barnabætur við álagningu opinberra gjalda í lok maí 2024 en fengið hefðu að óbreyttum lögum.
    Á árinu 2025 er gert ráð fyrir því að grunnfjárhæðir og skerðingarmörk barnabóta verði hækkuð til samræmis við þróun verðlags og launa og verða heildarútgjöld til barnabóta þá orðin 21 milljarður kr. Breytingar á barnabótakerfinu vegna ársins 2025 verða lagðar fram og kynntar á Alþingi haustið 2024 á 155. löggjafarþingi 2024–2025.

Barnabætur 2024 Einstætt foreldri Hjón og sambýlisfólk
Barnabætur með hverju barni 489.000 328.000
Viðbót með hverju barni yngra en 7 ára 130.000 130.000
Skerðingarmörk vegna tekna umfram 5.500.000 11.000.000
Skerðingarhlutfall, óháð fjölda barna* 4% 4%
*Skerðingarhlutfall viðbótar reiknast 4% á hvert barn, sbr. 1. gr. frumvarpsins.

3.2. Sérstakur vaxtastuðningur.
    Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimilanna síðustu misseri er lagt til að á árinu 2024 verði ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán. Um tímabundna einskiptis aðgerð til eins árs er að ræða sem áætlað er að feli í sér ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings til ríflega 50 þúsund einstaklinga við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024. Vaxtastuðningurinn mun einkum ná til heimila í lág- og millitekjuhópum og koma til móts við þunga vaxtabyrði þeirra. Stuðningurinn mun koma til viðbótar almennum vaxtabótum og taka mið af vaxtagjöldum ársins 2023 að teknu tilliti til tekna, eigna og fjölskyldugerðar. Þá er gert ráð fyrir því að sérstakur vaxtastuðningur verði greiddur beint inn á höfuðstól lána nema lántakandi óski þess sérstaklega að nýta hann til að lækka afborganir tiltekins láns út árið 2024 þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Áætlað er að umfang sérstaks vaxtastuðnings nemi 5–7 milljörðum kr.

Sérstakur vaxtastuðningur* Einstæðingur Einstætt foreldri Hjón og sambýlisfólk
Hámark vaxtastuðnings 150.000 200.000 250.000
Tekjuskerðing 4% umfram 6.000.000 6.000.000 9.600.000
Eignaskerðing 0,5% á hreina eign umfram 18.000.000 18.000.000 28.000.000
*Stofn til útreiknings sérstaks vaxtastuðnings er 23% af vaxtagjöldum skv. 2. mgr. B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum skattalaga. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var haft samráð við Fjársýsluna, Landssamtök lífeyrissjóða, Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Skattinn.
    Í frumvarpinu er að finna breytingar á lögum sem rekja má til stuðnings stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Vegna eðlis málsins og tengsla við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 voru frumvarpsáform, frummat á áhrifum og frumvarpsdrög ekki sett í samráðsferli samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, þar sem kveðið er á um að heimilt sé að víkja frá þessu ef mál eru sérlega brýn eða aðrar gildar ástæður eru fyrir hendi. Sjá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 1. gr., 2. málsl. 3. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. samþykktarinnar. Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá 154. löggjafarþings 2023–2024.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Mat á fjárhagsáhrifum.
    Árleg framlög til stuðnings við barnafjölskyldur í gegnum barnabótakerfið verða aukin um 3 milljarða kr. á árinu 2024, til viðbótar við fyrri áform, og um 2 milljarða kr. til viðbótar á árinu 2025 og munu þau þá nema um 19 milljörðum kr. á árinu 2024 og um 21 milljarði kr. á árinu 2025. Grunnfjárhæðir og tekju- og skerðingamörk hækka enn frekar samhliða lækkun á skerðingarhlutfalli bótanna til að auka stuðning og fjölga þeim fjölskyldum sem fá barnabætur. Með breytingunum munu tíu þúsund foreldrar til viðbótar fá barnabætur við álagningu opinberra gjalda í lok maí 2024.
    Áætlað er að ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings, sem taka mun mið af vaxtagjöldum ársins 2023 að teknu tilliti til tekna, eigna og fjölskyldugerðar, feli í sér stuðning til rúmlega 50 þúsund einstaklinga við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024. Áætlað er að umfang sérstaks vaxtastuðnings nemi 5–7 milljörðum kr. Stuðningurinn sem koma mun til viðbótar almennum vaxtabótum, verður greiddur beint inn á höfuðstól lána nema lántakandi óski þess sérstaklega að nýta hann til jafnrar lækkunar á afborgunum tiltekins láns út árið 2024 þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum ætti það að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimila og þá sérstaklega ungs fólks og lág- og millitekjuhópa. Áhrif þess á stjórnsýslu ríkisins og stofnanir þess eru talin hverfandi. Á hinn bóginn mun ríkissjóður verða af nokkrum tekjum, a.m.k. til skemmri tíma, sem veikir afkomu hans. Þau áhrif ættu þó að óbreyttu að minnka þegar litið er yfir lengra tímabil með auknum ráðstöfunartekjum fjölskyldna sem skila munu auknum veltusköttum.

6.2. Mat á jafnréttisáhrifum.
    Ekki hefur farið fram ítarleg greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins. Þó má leiða að því líkur að tillögur þess geti haft ólík áhrif á karla og konur enda eru konur að meðaltali með lægri tekjur en karlar og verða því síður fyrir tekjuskerðingum. Samkvæmt álagningarskrá ársins 2023 voru 54% kvenna í neðri helmingi tekjudreifingarinnar og konur eru aðeins 29% einstaklinga í efstu tekjutíundinni.
    Aukin framlög til barnabóta stuðla að auknum ráðstöfunartekjum tekjulægri fjölskyldna og stuðla jafnframt að jafnrétti kynjanna. Gera má ráð fyrir því að hækkun grunnfjárhæða og tekju- og skerðingamarka barnabóta samhliða lækkun skerðingarhlutfalls bótanna komi til með að auka ráðstöfunartekjur kvenna í meiri mæli en ráðstöfunartekjur karla.
    Ganga má út frá því að ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings komi til með að hafa einhver jafnréttisáhrif í för með sér. Samkvæmt álagningarskrá ársins 2023 er lítillega algengara að karlar séu á leigumarkaði en konur. Hvað eignarhald á fasteignum varðar eru einhleypar konur líklegri til að eiga fasteign en karlar sem eiga frekar fasteign í sambúð. Með tilliti til tekjutengingar sérstaks vaxtastuðnings er líklegra að ákvörðun hans komi til með að nýtast þeim konum betur en körlum sem tekið hafa lán vegna kaupa á fasteign.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til með bráðabirgðaákvæði við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, að grunnfjárhæðir og tekju- og skerðingamörk barnabóta verði hækkuð samhliða lækkun skerðingarhlutfalls bótanna á árinu 2024. Þannig munu barnabætur einstæðra foreldra hækka úr 460.000 kr. með hverju barni í 489.000 kr. Fyrir foreldra í sambúð hækka barnabætur úr 310.000 kr. með hverju barni í 328.000 kr. Fjárhæð barnabóta sem greiddar eru með börnum yngri en sjö ára óháð hjúskaparstöðu verður óbreytt.
    Á árinu 2024 er jafnframt gert ráð fyrir því að skerðingarmörk tekna vegna barnabóta einstæðra foreldra verði hækkuð úr 4.893.000 kr. á ársgrundvelli í 5.500.000 kr. Fyrir foreldra í sambúð verða skerðingarmörkin 11.000.000 kr. á ársgrundvelli í stað 9.785.000 kr.
    Barnabætur skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn og er að lokum lagt til að á árinu 2024 verði skerðingarhlutfall bótanna lækkað úr 5% í 4%.
    Í b-lið er lagt til með bráðabirgðaákvæði við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur sem nemur 23% af vaxtagjöldum ársins 2023 sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin eru kaup á búseturétti samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, eins og þau eru í árslok 2023. Sérstakur vaxtastuðningur kemur til viðbótar almennum vaxtabótum við álagningu opinberra gjalda í lok maí 2024.
    Hámarksfjárhæð þessarar tímabundnu einskiptisaðgerðar mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 kr. fyrir einstætt foreldri og 250.000 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 62. gr., í lok tekjuárs, að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Hámark sérstaks vaxtastuðnings hjá þeim sem bera skattskyldu hér á landi hluta úr ári ákvarðast í hlutfalli við dvalartíma á árinu. Sérstakur vaxtastuðningur skerðist hlutfallslega fari eignir að frádregnum skuldum fram úr 18.000.000 kr. hjá einstaklingi eða einstæðu foreldri og 28.000.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki og nemur skerðingarhlutfallið 0,5% af hreinni eign. Sérstakur vaxtastuðningur skerðist jafnframt í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 6.000.000 kr. hjá einstaklingi eða einstæðu foreldri og 9.600.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með tekjuskattsstofni er átt við tekjur skv. II. kafla að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. laga um tekjuskatt. Skerðingarhlutfallið nemur 4% af tekjuskattsstofni.
    Gert er ráð fyrir því að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðislána en heimilt verður að óska eftir að nýta hann til jafnrar lækkunar á afborgunum tiltekins láns út árið 2024 þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Beiðni um tilhögun ráðstöfunar skal berast ríkisskattstjóra eigi síðar en 30. júní 2024. Ríkisskattstjóri mun ákvarða sérstakan vaxtastuðning við álagningu opinberra gjalda 2024 og birta með niðurstöðu álagningar. Eftir það er þeim sem ákvörðun tekur til heimilt að fara inn í þjónustusíðu sína á skattur.is og velja hvernig skuli ráðstafa stuðningnum, þar á meðal inn á nýtt lán sem tekið hefur verið til endurfjármögnunar húsnæðisláns. Ákvörðun skal tekin í júní 2024 og er hún bindandi fyrir viðkomandi. Ef þetta er ekki gert verður greiðslunni ráðstafað inn á það lán sem er hæst að eftirstöðvum samkvæmt kafla 5.2 í skattframtali. Kjósi þeir sem ákvörðun tekur til að velja hvernig stuðningi skuli ráðstafa þurfa viðkomandi að hafa í huga, ef fleiri en eitt lán koma til greina, að velja lán þar sem fjárhæðinni er allri ráðstafað, að öðrum kosti fellur sú fjárhæð sem umfram er niður. Það er m.a. af þeirri ástæðu sem gert er ráð fyrir því að greiðslu verði ráðstafað inn á lán með hæstu eftirstöðvum, í þeim tilvikum þegar ekkert er valið, en sá möguleiki er alltaf til staðar að velja hvernig stuðningi skuli ráðstafa og inn á hvaða lán eða afborganir láns hann skuli greiða. Sérstakur vaxtastuðningur greiðist einungis inn á lán eða til að lækka afborganir af þeim í samræmi við ákvæðið og að uppfylltum skilyrðum þess. Stuðningurinn kemur því ekki til útborgunar. Af því leiðir að vaxtagjöld vegna uppgreiddra húsnæðislána sem ekki hafa verið endurfjármögnuð veita ekki rétt til sérstaks vaxtastuðnings sem ætlað er að mæta auknum vaxtakostnaði heimilanna síðustu misseri.
    Ríkisskattstjóri sendir Fjársýslunni á tímabilinu 1.–31. júlí 2024 upplýsingar um ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings og inn á hvaða lán eða afborganir skal greiða á tímabilinu. Fjársýslan greiðir í framhaldinu sérstakan vaxtastuðning og miðlar upplýsingum innan fimm virkra daga frá móttöku til lánveitenda sem ráðstafa greiðslunum beint inn á lán, og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds, eða afborganir innan fimm virkra daga frá móttöku í samræmi við ákvæðið. Ef um lán er að ræða sem eru í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Hafi lántakandi notið greiðslujöfnunar greiðist fyrst inn á skuld á jöfnunarreikningi. Komi síðar í ljós að sérstakur vaxtastuðningur hefur verið ákvarðaður of hár miðað við breytingar á skattframtali viðkomandi myndast skuld en ekki verður gerð breyting á ráðstöfun inn á lán. Ef lánveitanda reynist ómögulegt að ráðstafa greiðslu inn á lán eða afborganir, eða hafni hann því, þarf hann að endurgreiða Fjársýslunni greiðsluna sem telst eign ríkissjóðs þar til ráðstöfun hennar hefur farið fram.
    Sérstökum vaxtastuðningi verður ekki skuldajafnað eins og mælt er fyrir um í 14. mgr. B-liðar 68. gr. Hann kemur til viðbótar vaxtabótum og mun ekki teljast til skattskyldra tekna frekar en vaxtabætur skv. B-lið 68. gr. laga um tekjuskatt, sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI. Sérstakur vaxtastuðningur, sem er lægri en 5.000 kr. á mann, fellur niður. Gert er ráð fyrir því að ráðherra verði heimilt að kveða á um framkvæmd sérstaks vaxtastuðnings í reglugerð.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við ákvörðun barnabóta og sérstaks vaxtastuðnings við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024.